laugardagur, október 21, 2006

Noregsferð

Eins og áður hefur komið fram var ég í Noregi á síðustu helgi og tókst ferðin með eindæmum vel. Við lögðum af stað um ellefuleytið á Freysdag frá skólanum tókum lest til Hirthshals og þar stigum við um borð í ferjuna Christian IV, ferjan var yfirfull af fólki á leiðinni heim úr haustfríi. við komum til Kristiansand um fimmleytið og á leiðarenda um klukkan sex. Ég gisti hjá Tengdaforeldrum Rúnars, sem er hópfélagi minn hér í skólanum. En þau búa í sveit rétt hjá Mandal sem er syðsta borgin í Noregi. Á laugardaginn fórum við að skoða Mandal sem er kölluð hvíta borgin, af þeirri ástæðu að nær öll húsin þar eru máluð hvít, þetta er ansi fallegur bær flottur gamall miðbær og bryggjan er full af bátum því hver einasta fjölskylda á bát. Undan ströndinni er fullt af litlum eyjum þar sem heimamenn eiga margir hverjir sumarbústað og eyða margir heilu sumrunum þar. Við fórum svo í smá siglingu í litlum gömlum bát smíðum þarna í Mandal.

Um kvöldið fórum við svo í mat til systur hans Rúnars og fengum góðan mat norskan mat. Þar var svo ákveðið að fara á rádýraveiðar daginn eftir. Við lögðum af stað um áttaleytið inn í skóginn og þar var hundinum sleppt lausum. Hundurinn fann slóð og náði að elta tvö dýr. Veiðimennirnir stilltu sér upp og biðu eftir dýrunum. Við heyrðum í hundinum koma og stuttu síðar sáum við tvö dýr skjótast stutt frá okkur en þau voru of snögg svo Rúnar náði ekki færi, en þetta var ansi spennandi ferð og skemmtilegt að fara inn í skóginn. Eftir veiðina kveiktum við eld og grilluðum pulsur.

Um kvöldið fékk ég svo að smakka á Elgskjöti, en það er afar bragðmikið kjöt. Morgunin eftir fórum við í smá ferð til Kristiansand og skoðuðum okkur um.

Við fórum svo heim á Týsdag með ferjunni og vorum komnir heim um fjögurleytið ánægðir með góða ferð.

Á morgun er svo sett stefnan á stutta hjólaferð eitthvað út fyrir borgina, meira um það síðar. Góðar stundir.

föstudagur, október 13, 2006

Noregsferð

Um hádegisbilið á morgun verð ég kominn í langt helgarfrí, við fáum nefnilega frí á mánudag og týsdag. Ég var eitthvað að vandræðast með hvað ég ætti að gera í fríinu en það leystist þegar hópfélagi minn stakk upp á því að ég færi með honum til Noregs. Hann er frá Mandal sem er rétt hjá Kristiansand, þannig að þetta verður stutt ferð yfir sundið. Nú er bara að klára að pakka saman og hlakka til ferðarinnar.

föstudagur, október 06, 2006



Játningar

Kæru vinir ég þarf að gera játningu. Ég hef verið hér í danmörku í rúman mánuð og ekki hagað mér eins og íslendingi sæmir. Ég var fyrst núna að kaupa fyrsta kassann af bjór. Ég veit að sum ykkar geta ekki orða bundist yfir þessu en ég mun gera bragarbót á þessu og lofa að eiga nóg í ískápnum ef eitthvert ykkar skyldi kíkja í heimsókn. Og bráðum kemur betri tíð, með bjór í maga eins og skáldið sagði.

Kassinn kostaði krónur 127 og 50 aura danska, innifalið í því er skilagjald krónur 42 og 50, þannig að í heildina kostar bjórinn 85 krónur sem í íslenskum er 986,94 krónur íslenskar sem gerir 33 krónur íslenskar fyrir stykkið!

Á morgun er ég að fara í hjólaferð eitthvert út úr borginni, það er spáð rigningu þannig að áðan keypti ég mér regnjakka, svo að það ætti ekki að væsa um kallinn.