sunnudagur, september 24, 2006

Færsla númer tvö.

Ég þarf að fara að venja mig á að skrifa inn á þetta blogg, þýðir ekki að láta fólk reka á eftir sér. Nú eru liðnir rúmir tuttugu dagar síðan ég skrifaði síðast þannig að það er bara best að byrja þar sem ég endaði síðast.
Dvöl mín hér í Álaborg byrjaði ekki vel. Helgina sem skólinn byrjaði var ég að hjálpa Didda frænda mínum að setja upp tól og tæki fyrir barnahátíð hér í bæ, Sjov i Parken. Sem gekk með ágætum þar til við fórum að taka saman hoppukastalana og tjöldin, þá réðust á okkur í hópum einhvers konar moskítóflugur, sem Danir kalla Mygt. Dagana eftir þessa árás þá leit allt út fyrir að ég mundi enda með því að ég myndi breytast í einhvers konar fílamann, en það varð sem betur fer ekki og er ég búinn að ná mér að fullu.

Ég bý á Kollegí í vesturbæ Álaborgar, c.a. 1km frá miðbænum (Ny Kastetsvej 16E, ef einhver ætlar að kíkja í kaffi). Nágrannar mínir hér á kollegíinu koma allsstaðar að úr heiminum, Þýskalandi, Mexíkó, Kanada, USA, Frakklandi og Tælandi svo eitthvað sé nefnt. Það er afskaplega góður andi í húsinu, við erum búin að halda nokkur partí og er hópurinn búinn að blandast ansi vel.

Um daginn fór ég á tónleika með hinni þokkafullu Eivoru, og var það mögnuð kvöldstund, Álaborg er mikið menníngarpláss og nóg að gera að sækja hina og þessa tónleikana ef maður er þannig stemmdur.

Annars er ég bara búinn að vera uppí skóla og læra, stundaskráin er ansi stíf fyrstu vikurnar en svo tekur verkefnið smám saman við. Skólinn hérna er byggður upp á hópavinnu og fær hver hópur verkefnir sem tekur alla önnina að leysa. Hópurinn minn samanstendur aðeins af mér og einum nojara og er ég nokkuð sáttur við þá skipan. Verkefnið sem við fengum snýst um að búa til stýringu á krana þannig að kraninn sveiflist sem minnst þegar hann leggur af stað og þegar hann stoppar, en krani þessi er svipaður af gerð og notaður er í höfnum landsins, bara
töluvert minni.

jæja vonandi þurfiði ekki að bíða lengi eftir næstu færslu, en þangað til eigið góðan dag.